Að umhella víni

Þegar þú opnar flösku af góðu víni, umhellir þú víninu? Hvers vegna – hvers vegna ekki?

Oft nægir að draga tappann úr flöskunni og hella beint í glasið – engin umhelling hér! En hér eru þrjár ástæður til að umhella víni:

1. Það er botnfall í víninu og þú vilt skilja það frá með því að hella víninu varlega í hreint ílát.
2. Vínið er í yngri kantinum, en þú vilt drekka það NÚNA. Frískleg umhelling getur mýkt óþroskað vín og gert það betra.
3. Þú ert með gesti í mat og vilt bera vínið fram í fallegri karöflu frekar en að setja flöskuna á borðið.

Í tilvikum 2 og 3 nægir að hella víninu beint úr flöskunni í karöfluna án þess að hugsa neitt frekar út í það. En ef þú ert að umhella víninu vegna þess að það er botnfall í flöskunni (eins og kemur oft fyrir í árgangspúrtvínum og rauðvínum þegar þau þroskast) þá þarf að beita ákveðnni tækni:

Flaskan ætti helst að fá að standa upprétt í nokkra daga áður en vínið er borið fram, svo að allt botnfall nái að setjast á botninn í flöskunni. Þegar flaskan er svo opnuð þarf að gera það mjög varlega og forðast að hrista flöskuna. Hafðu karöfluna vel hreina og umhellingin þarf helst að fara fram í góðri birtu. Lyftu flöskunni varlega upp og helltu hægt og rólega yfir í karöfluna þannig að sem minnst hreyfing komist á vínið þegar hellt er. Horfðu í gegnum flöskuhálsinn (gott að hafa gott ljós á bak við) og fylgstu með þar til þú sérð botnfallið nálgast flöskuhálsinn, en passaðu að ekkert sleppi út. Sé þetta gert varlega ættir þú að ná um 90% af víninu úr flöskunni og mjög lítið að verða eftir með botnfallinu.

Þetta er nú öll kúnstin, en ef þú vilt ná öllu víninu getur þú hellt restinni í gegnum kaffisíu. Ég mæli þó ekki með að því sem hellt er í gegnum síuna sé blandað saman við restina af víninu, ef sían skyldi gefa víninu eitthvert aukabragð.

Allir athugasemdir vel þegnar!

%d bloggers like this: