Amarone

Amarone-vín eru kröftug og bragðmikil vín frá Veróna-héraðinu á Ítalíu.  Veróna-héraðið er betur þekkt fyrir Valpolicella og Valpolicella Superiore – frískleg og bragðmikil vín sem yfirleitt eru drukkin ung.  Amarone varð þó eiginlega til fyrir mistök.  Sagan segir að framleiðandi nokkur hafi ætlað sér að búa til Recioto – sætt rauðvín sem búið er til úr þurrkuðum Corvina, Rondinella og Molinara-þrúgum – en gleymdi víninu í tunnunni þannig að allur ávaxtasykurinn gerjaðist (við framleiðslu Recioto er gerjunin stöðvuð áður en sykurinn klárast) og vínið varð því ekki sætt eins og til var ætlast, og var því kallað “Amarone” (mikil beiskja, eða eitthvað í þá áttina).

Amarone var fyrst selt árið 1938 en salan hófst ekki fyrir alvöru fyrr en 1953.  Framleiðslan er þó tiltölulega lítil, aðeins um 10% af heildarframleiðslunni í Verónahéraði, þar sem Valpolicella og Valpolicella superiore eru alls ráðandi, enda framleiðsluferlið mun einfaldara þrátt fyrir að notaðar séu sömu þrúgur.  Fram til 1990 var framleiðsla á Recioto meiri en Amarone, en þá varð reglugerðarbreyting sem gaf Amarone eigin stöðu sem Denominazione di Origine Controllata, og síðan þá hefur eftirspurnin bara aukist og nú er framleitt mun meira af Amarone en Recioto.

Amarone er búið til úr þrúgunum Corvina, Rondinlla og Molinara, sem er tíndar í byrjun október.  Þrúgurnar eru síðan þurrkaðar (skv. hefðinni eru þær þurrkaðar á strámottum en nú notast flestir við stórar þurrkunarklefum) þar til þær verða nánast að rúsínum.  Þurrkunarferlið (“appassimento”) tekur um 3 mánuði en þá hefst sjálft gerjunjarferlið sem tekur allt upp í 50 daga, þar sem þrúgurnar eru kramdar og gerjast við frekar lágt hitastig. Við framleiðslu á Recioto er gerjunarferlið stöðvað áður en því lýkur af sjálfu sér til að fá sætara vín. Eftir gerjunina er vínið látið þroskast í tunnum úr franskri eða slóvenskri eik (franska eikin gefur frá sér meiri tannín en sú slóvenska).  Afraksturinn er kröftugt vín, með ákveðnum rúsínukeim (kemur ekki á óvart!) og áfengismagnið er oft yfir 15% (skv. reglugerðinni er lágmarkið 14%).  Vínin er yfirleitt geymd í 5 ár áður en þau eru sett í sölu, þó svo að slíks sé ekki krafist í reglugerðinni.

Í vínbúðum ÁTVR fást nokkur góð Amarone-vín:

  • Masi Costasera Amarone – Kröftugt vín með keim af kirsuberjum, súkkulaði og plómum, góð fylling og gott jafnvægi.  Þolir einnig geymslu í 5-10 ár til viðbótar.
  • Tommasi Amarone della Valpolicella Classico – Dökkrautt, með kirsuberjakeim, þurrkaða ávexti og smá viðarlykt.
  • Villa Girardi Amarone Della Valpolicella – Þurrt, góð fylling, kirsuber og plómur.

Amaronevín hæfa vel með stórum steikum en einnig með ostum, súkkulaði eða bara eitt sér.

4 comments on “Amarone
  1. Amarone er i miklu uppáhaldi hjá mér. Ég vil benda á amaroneguiden.se. Frábær siða. Henrik er sá sem fyrst kynnti mér fyrir Amarone.

  2. Det är en utmärkt sida för alla Amaroneälskare. Tyvärr är Amaronesortimentet inte så bra här på Island, så man får passa på och handla lite Amarone när man är i Sverige!

Allir athugasemdir vel þegnar!

%d bloggers like this: