Austurríki

Í Austurríki er löng hefð fyrir vínframleiðslu, allt frá því fyrir tíma Rómverja.  Eftir fall Rómaveldis bitnuðu tíðar styrjaldir og innrásir illa á vínframleiðslunni, en eftir að Karla-Magnús komst til valda í Evrópu tóku betri tímar við, allt þar til öðru vísi innrásir tóku við.  Myglusjúkdómar og rótarlúsin phylloxera komu illa við vínframleiðslu í Austurríki, en urðu þess þó valdandi að betri vínviðir og þrúgur, sér í lagi Grüner Veltliner, komu í stað lakari tegunda.  Eftir lok fyrri heimsstyrjaldarinnar var Austurríki þriðja stærsta vínframleiðsluland í heimi, en meginpartur framleiðslunnar voru ódýr vín sem flutt voru til Þýskalands til íblöndunar við þýsk vín.  Upp úr 1980 kom svo í ljós að ýmsir vínframleiðendur höfðu reynt að „bæta“ vínin sín með því að blanda í þau díetýlene glýkól (algengt í frostlegi!), sem gaf vínunum sætu og fyllingu.  Upp komst um allt saman þegar einn framleiðandinn reyndi að draga frostlöginn frá skatti!  Þó svo að frostlögurinn hafi verið í svo litlu magni í vínunum að hann var í raun hættuminni en alkóhólið þá hafði þetta mjög skaðleg áhrif á alla vínframleiðslu í Austurríki, vínútflutningurinn hrundi og sum lönd bönnuðu sölu á austurrískum vínum.  Þegar litið er til baka má þó færa rök fyrir því að þetta hneyksli hafi í raun og veru bjargað vínframleiðslu í Austurríki.  Nýjar og hertar reglur voru settar um vínframleiðslu og framleiðendur sneru sér í auknum mæli að framleiðslu betri vína, einkum rauðvína og þurra hvítvína, sem var einmitt það sem neytendur og markaðurinn sóttust eftir á tíunda áratug síðustu aldar.

Grüner Veltliner er í dag algengasta þrúgan sem ræktuð er í Austurríki, eða um þriðjungur heildarframleiðslunnar.  Aðrar algengustu þrúgurnar eru hin forna Welschriesling, sem notuð er í sætvín í Neusiedlersee, Müller-Thurgau og Zweigelt (rauð þrúga).

Helstu vínræktarsvæði Austurríkis

Vínframleiðslan fer einkum fram í austurhluta landsins í fylkjunum Niederösterreich og Burgenland.  Helstu héruðin eru Wachau, Kremstal og Kamptal í Niederösterreich og Neusiedlersee í Burgenland.  Wachau, Kremstal og Kamptal liggja meðfram bökkum Dónár (aðstæður hér eru svipaðar og meðfram bökkum Rínarfljóts í Þýskalandi) og þaðan koma frábær hvítvín úr Grüner Veltliner og Riesling.  Frá Neusiedlersee koma sæt botrytishvítvín (eðalmygluvín) og rauðvín úr Zweigelt-þrúgunni.

Þekktustu vínframleiðendur Austurríkis eru m.a. Bründlmayer, Allram, Alzinger og Hirtzberger, en á meðal nýrra og heitra framleiðenda eru F.X. Pichler sem sendi frá sér mörg og stórkostleg þurr hvítvín úr 2007-árgangnum.  Þá eru fjölmargir aðrir framleiðendur á uppleið í Austurríki og vert að fylgjast vel með þeirri þróun sem þar hefur átt sér stað undanfarin ár.

Allir athugasemdir vel þegnar!

%d bloggers like this: