Chateauneuf-du-Pape

Í byrjun 14. aldar var páfastóll færður frá Róm til bæjarins Avignon í suðurhluta Rónardalsins í Frakklandi. Að sjálfsögðu var það eitt fyrsta hlutverk páfahirðarinnar að gróðursetja vínvið til að búa til vín fyrir páfann.

Páfastóll varð þó ekki nema tæplega 70 ár í Avignon og var fluttur á ný til Rómar árið 1377. En vínviðurinn sem þar var gróðursettur varð samt upphafið að sérstökum vínum – Chateauneuf-du-Pape – „Nýji kastali páfans.“

Vínviðurinn var gróðursettur í óvenjugrýttan jarðveg sem tekur í sig sumarhitann og geymir, og þrúgurnar ná því yfirlett góðum þroska og vínin verða þétt og kröftug. Héraðið á sér langa sögu og þar eru notuð margar þrúgutegundir, og í dag leyfir vínlöggjöfin að nota megi 13 tegundir í vín sem kennd eru við Chateauneuf-du-Pape. Aðeins fáir framleiðendur nota allar 13 þrúgurnar í vínin sín, en flestir nota nokkrar meginþrúgur: Grenache er meginuppistaðan, en Mourvèdre, Syrah og Cinsault eru yfirleitt einnig notaðar. (Hvítt Chateauneuf-du-Pape er einnig til, en tiltölulega lítið af því og bestu vínin eru yfirleitt dýr, en hin ódýrari oftast óspennandi.)

Vegna þess hve blöndunin er margvísleg, að ekki sé minnst á mismunandi aðferðir við gerð vínsins, þá eru Chateauneuf-du-Pape mjög fjölbreytt. Þau eru yfirleitt þétt með góða fyllingu, ávaxtarík, með piparkeim, stundum moldarbragð og jafnvel útihús (kemur frá gersveppnum brettanomyces). Árgangur skiptir einnig miklu máli. Flest ár tíunda áratugarins voru góð í Avignon, en 1997 telst ekki hátt skrifað; hins vegar er 1998, sem nú er að koma á markað, talið vera mjög gott, vínin ávaxtarík, þétt og höfug og tilbúin til neyslu – afrakstur af löngu og heitu sumri í Rónardalnum.

Flest Chateauneuf-du-Pape má drekka ung, en þau leggjast nánast í dvala 4-8 ára og ná síðan meiri þroska og fá á sig meiri „moldarkeim,“ sem mörgum þykir eftirsóknarverður í þessum vínum. Almennt er þó álitið að Chateauneuf-du-Pape eigi að drekka áður en þau ná 15-20 ára aldri.

Allir athugasemdir vel þegnar!

%d bloggers like this: