Geymsla á víni

Eftir Hermann Má Þórisson

Hvernig er best að geyma vín?

Ef þetta er vín sem á að drekka innan árs eða svo þá þarf ekki að hafa miklar áhyggjur af því en samt sem áður að reyna að geyma þá á frekar köldum og helst dimmum stað.Vín sem eru ætluð til lengri geymslu:

Hitastigið er mjög mikilvægt. Það má ekki sveiflast of mikið og æskilegasta hitastigið er á milli 10°C – 14°C. Miklar sveiflur í hitastigi geta eyðilagt fyrir víninu. Ef hitinn er of mikill þá mun vínið eldast hraðar svo það mun ekki verða eins stórt og það myndi verða ef það fengi að geymast við kjörhitastig. Ef vínið er geymt á of köldum stað mun hægja á þroska vínsins.

Sumir hafa verið að geyma vín og ekki farið eftir hitareglunni og haldið því fram að hæg hitabreyting frá frekar köldu að volgu hafi ekki haft mikil áhrif á vínið. Engu að síður ef þú geymir vínið lengi við of mikinn hita þá mun það eldast hraðar og ekki ná því risi sem það annars myndi ná.

Rakastig er einnig mjög mikilvægt. Um það bil 60% raki er rétt rakastig. Við þetta rakastig heldur korkurinn í flöskunni raka sínum. Vínið mun oxast ef loftið (súrefni) kemst í það. Ef korkurinn þornar þá skreppur hann saman svo loft kemst á milli hans og flöskunnar inn til vínsins.

Geymið flöskurnar á hliðinni. Þá er það vínið sjálft sem hjálpar korkinum að haldast rökum.

Reynið að halda víninu frá sterkri lykt. Ef vínið er geymt í sterkri utanaðkomandi lykt þá er hætta á því að lyktin komist í gegnum korkinn og í vínið.

Sumir velta því fyrir sér hvort ekki sé hægt að breyta gamla ískápnum í góðan „vínkjallara“. Þetta álíta menn að sé ekki góður kostur, til að byrja með eru ískápar einfaldlega of kaldir. Það er kannski hægt að breyta um hitastilli í ískápum til að minnka kuldann í rétt hitastig en það dugir ekki til því ískápar eru hannaðir til að vera mjög þurrir. Þar sem vín þurfa að vera geymd við um það bil 60% rakastig þá henta ískápar ekki til þess. Einnig er titringur til staðar í flestum ískápum sem ekki er til bóta til geymslu á víni.

Allir athugasemdir vel þegnar!

%d bloggers like this: