Kalifornía

Í Bandaríkjunum á víngerðin sér yfir 300 ára sögu og vín er nú framleitt í öllum 50 fylkjum Bandaríkjanna.  Bandaríkin eru fjórða stærsta vínframleiðsluland heims.  Kalifornía er lang stærsta vínframleiðslufylkið, og í Kaliforníu er framleitt meira magn av víni en í allri Ástralíu!  Mikil vínframleiðsla fer einnig fram í Oregon, Washington og New York.

Árið 1919 var vínframleiðsla bönnuð í gervöllum Bandaríkjunum þegar átjánda viðbótin við stjórnarskrána var samþykkt, en þar var kveðið á um bann við allri framleiðslu á og verslun með áfengi, að messuvíni undanskildu. Árið 1933 var 21. viðbótin samþykkt en þar var einstökum fylkjum heimilt að banna framleiðslu á og verslun með áfengi, en þá má segja að bannárunum hafi lokið.  Þegar víngerð var aftur heimiluð var ástand bandarískrar víngerðar þó mjög bágborið.  Margir helstu víngerðarmennirnir höfðu snúið sér að öðru og víða hafði vínviðnum verið skipt út fyrir annan vínvið sem gaf af sér vínber sem hentuðu betur til matar.  Bannárin höfðu líka haft sín áhrif á smekk Bandaríkjamanna þegar kom að vínum, og þeir heimtuðu ódýr „jug“-vín og sæt, styrkt vín.  Um miðjan fjórða áratug síðustu aldar voru sæt, styrkt vín um 80% af allri vínframleiðslu í Kaliforníu!

Í lok áttunda áratugar síðustu aldar voru svo settar reglur um bandaríska vínframleiðslu, m.a. um vínflokkun.  Nú eru 187 skilgreind vínræktarsvæði skv. þessum reglum.

Reglur um merkingar á bandarískum vínum eru þó aðeins frjálslegri en þær evrópsku, en sum fylkin hafa þó sett sér strangari reglur.  Vín sem tilgreint er sem svo að það sé gert út tiltekinni þrúgu verður að innihalda a.m.k. 75% af viðkomandi þrúgu (90% í Oregon), og sé árgangur tilgreindur verða a.m.k. 95% þrúganna að tilheyra viðkomandi árgangi.  Bandaríkjamenn hafa þó ekki veigrað sér við að heimila notkun á ýmsum evrópskum heitum, jafnvel þó að evrópsk lög banni slíkt.  Þannig geta bandarískir vínframleiðendur kallað vín sín „American Burgundy“ eða „California Champagne“.  Vín mega einnig heita Chablis, Chianti, Madeira, Marsala, Port, Rhine Wine, Sauternes, Sherry og Tokay!

Kalifornía

Kalifornía er aðeins minna en Frakkland, en þaðan koma þó um 90% af öllu víni sem framleitt er í Bandaríkjunum.  Þar eru nú yfir 1200 vínframleiðendur, allt frá smáframleiðendum til stórfyrirtækja á borð við E & J Gallo.

Líkt og í öðrum fylkjum Bandaríkjanna var ástand vínframleiðslunnar mjög bágborið þegar bannárunum lauk.  Smám saman fór framleiðslan þó batnandi og það urðu þáttaskil í bandarískri víngerð þegar breski vínkaupmaðurinn Steven Spurrier bauð nokkrum framleiðendum frá Kaliforníu að taka þátt í vínkeppni í París árið 1976.  Þar voru bandarísk vín borin saman við bestu vín Bordeaux og Bourgogne í blindsmökkun.  Það kom öllum á óvart þegar bandarísku vínin sigrðu í þessari keppni og skutu hinum virtu frönsku vínum ref fyrir rass!  Nú teljast bestu vínin frá Kaliforníu með bestu vínum heim og seljast fyrir háar upphæðir.

Kaliforníu er almennt skipt upp í fjögur vínhéruð:

 • North Coast – fyrir norðan San Francisco.  Hér eru m.a. Napa Valley, Sonoma County og Mendocino, sem aftur skiptast upp í minni vínræktarsvæði.
 • Central Coast – stór hluti miðstrandar Kaliforníu frá San Francisco suður til Santa Barbara.  Hér eru m.a. vínræktarsvæðin Santa Clara Valley, Santa Cruz Mountains, Paso Robles og Livermore Valley.
 • South Coast – suðurströnd Kaliforníu frá Los Angeles að landamærunum Mexíkó.  Hér eru m.a. Temecula Valley og Ramona Valley.
 • Central Valley – stærsta vínhérað Kaliforníu, frá Sacramento Vally til San Joaquin Valley.  Helst vínræktarsvæðið er Lodi.

Napa Valley

Víngerð hófst fyrir alvöru í Napa Valley um miðja nítjándu öld þegar Charles Krug hóf vínframleiðslu í St. Helena.  Gustave Niebaum stofnaði Inglenook Winery í Rutherford árið 1879 og hóf framleiðslu á vínum í Bordeaux-stíl.  Í lok nítjándu aldar voru yfir 140 vínframleiðendur í Napa og sumir þeirra starfa enn í dag, m.a. Beringer, Beaulieu og Charles Krug.  Bannárin og rótarlúsin phylloxera fóru illa með vínframleiðendur í Napa líkt og í öðrum fylkjum Bandaríkjanna og víngerðin var lengi að jafna sig á þeim áföllum.  Robert Mondavi var í fararbroddi endurreisnarinnar og 1965 yfirgaf hann Charles Krug-víngerðina sem var í eigu fjölskyldu hans og hóf víngerð undir eigin nafni.

Helstu vínræktarsvæðin (appellations) í Napa Valley eru:

 • Los Carneros – einkum þekkt fyrir framleiðslu á freyðivínum, en héðan koma líka góð vín úr Chardonnay og Pinot Noir.
 • Oakville  – hér eru m.a. To Kalon vínekrurnar þar sem Charles Krug hóf að rækta vínvið og síðar Robert Mondavi.
 • Rutherford – frekar lítið svæði en á sér mikla sögu, og hér eru m.a. Inglenook Winery og Beaulieu Vineyards.
 • St. Helena  – Hér er m.a. Charles Krug Winery.
 • Stag‘s Leap District – Hér er m.a. Stag‘s Leap Wine Cellars, sem sigruðu í vínsmökkunarkeppninni í París árið 1976 með Cabernet Sauvignon 1973.

Sonoma

Í Sonoma er framleitt mun meira af víni en í Napa, og líkt og í Napa á víngerðin sér langa sögu, allt frá því fyrir daga borgarastríðsins.  Bannárin fóru líka illa með víngerðina í Sonoma en á síðustu áratugum hefur orðið mikil sprenging í víngerðinni og framleiðendum fjölgað til muna.  Algengustu þrúgurnar eru auðvitað Cabernet Sauvignon og Chardonnay, en Pinot Noir, Merlot og Zinfandel eru einnig ræktaðar í nokkru magni.

Sonoma County skiptist í 13 vínræktarsvæði, m.a.:

 • Alexander Valley – hér eru Kendall Jackson og E & J Gallo nokkuð umsvifamiklir, og Cabernet Sauvignon nýtur sín vel.
 • Knights Valley – Beringer var frumkvöðull á þessum slóðum og ræktar hér töluvert af Cabernet Sauvignon.
 • Los Carneros – Nálægðin við San Pablo-flóann veitir kjöraðstæður fyrir ræktun Pinot Noir og Chardonnay, og kampavínsframleiðendur á borð við Moët et Chandon (Domaine Chandon) og Taittinger (Domaine Carneros) rækta eða kaupa mikið af þrúgum af þessu svæði til freyðivínsgerðar.
 • Russian River Valley – Það sem helst einkennir aðstæður í Russian River Valley er að á morgnana kemur oft þoka frá Kyrrahafinu og kælir vínviðinn, og veitir kjöraðstæður til ræktunar á Pinot Noir og Chardonnay.

Helstu þrúgurnar

Cabernet Sauvignon er ókrýnd drottning þrúganna í Kaliforníu.    Hún er ræktuð í svo gott sem hverju einasta vínræktarsvæði en gefur af sér mjög ólík vín eftir því hvar hún er ræktuð.  Sé hún ræktuð á vínekrum sem liggja í fjallshlíðum þar sem jarðvegur er minna frjósamur eru berin lítil og bragðmikil og vínin, sem flest eru í Bordeaux-stíl, þurfa tíma til að þroskast áður en þau njóta sín að fullu.  Sé Cabernet Sauvignon hins vegar ræktuð á frjósömum sléttum verður uppskeran stærri og vínin oft kröftugri. Margir vínræktendur kjósa að láta þrúgurnar ná fullum þroska áður en þær eru skornar og dæmigert Cabernet Sauvignon-vín frá Kaliforníu er því með mikla fyllingu, ávaxtaríkt með hátt áfengisinnihald (oft yfir 14%).  Þau hafa löngum einkennst af áberandi eikarkeim en á síðstu árum hefur þó aðeins dregið úr eikinni í mörgum Kaliforníuvínum og jafnvel farið að nota franska eik í tunnurnar (frönsk eik gefur ekki jafn sterkan viðarkeim og sú ameríska).

Chardonnay er mikið ræktuð í Kaliforníu og árið 2005 var Chardonnay-uppskeran í Kaliforníu fjórðungur af heildarframleiðslu á Chardonnay í öllum heiminum.  Framan af voru amerísk Chardonnayvín gerð úr þrúgum sem voru nánast ofþroskaðar og vínin eftir því með mjög hátt áfengisinnihald sem gat sett vínið úr jafnvægi.  Ameríska eikin var líka full áberandi.  Undanfarin ár hefur þó margir framleiðendur reynt að minnka áfengisinnihaldið með ýmsum leiðum og dregið úr eikinni til að nálgast Chablis-stíl, oft með mjög góðum árangri.

Zinfandel er svo amerísk að það væri hægt að kalla hana „all-american“ (eins og kananum er svo tamt að segja um það sem þeim finnst vera ekta amerískt!).  Hún er ræktuð í fjölmörgum öðrum fylkjum en nýtur sín best í Kaliforníu þar sem hún gefur af sér fjölbreytileg vín, allt frá sætum eftirréttavínum og púrtvíns-líkum vínum til léttra rósavína (hvít zinfandel), léttra Beaujolais-líkra rauðvína og stórra, kröftugra rauðvína.

Aðrar þrúgur sem ræktaðar eru í miklu magni eru Sauvignon Blanc, Merlot, Pinot Noir og Syrah, en alls eru ræktað yfir 100 ólíkar þrúgur í Kaliforníu.

Allir athugasemdir vel þegnar!

%d bloggers like this: