Nýi heimurinn – Gamli heimurinn

Eftir Smára Rúnar Þorvaldsson

Langt fram á 20. öldina var staðan sú í víngerð í heiminum að einungis voru framleidd gæðavín í suðvesturhluta Evrópu (ath. einnig Ungverjaland). Annars staðar í heiminum var framleiðslan lítilfjörleg og ekki hæf til útflutnings í samkeppni við evrópsk vín. Þessi mynd hefur verið að breytast mjög hratt síðustu ár og áratugi og hefur heimskort víngerðar tekið stakkaskiptum. Sífelt fleiri víngerðarmenn frá sífelt fleiri svæðum koma fram á sjónarsviðið með álitleg vín sem standast evrópskum vínum snúning og eru þær raddir farnar að heyrast að aðeins sé tímaspursmál hvenær víngerð Nýja heimsins muni skjótast fram úr víngerð Evrópu, ef það hefur þá ekki þegar gerst. Sitt sýnist hverjum í þessu og misjafn smekkur manna mun líklega leiða til þess að lengi verður um það deilt. Það leikur þó enginn vafi á að þróun í víngerð ýmissa nýrra víngerðarsvæða, eins og Ástralíu, Bandaríkjana, Chile og Nýja Sjálands, hefur verið mun hraðari en þróunin í Evrópu.

Hvað veldur því að framþróunin er lítil sem engin á þeim svæðum sem byggja á gamallri víngerðarhefð á meðan önnur svæði eru að taka fram úr?

Ein meginskýringin er sú að vínvið hefur verið plantað á svæðum þar sem hann var ekki til staðar áður, þrátt fyrir að veður og jarðvegsskilirði séu á margan hátt hagstæð. Á sama tíma hafa hinir nýju vínræktendur sótt þekkingu í reynslu og viskubrunn Evrópubúa. Þetta er þó ekki nægileg skýring því ef ræktunarskilyrðin eru sambærileg og aðferðirnar þær sömu er ólíklegt að betri vín muni koma frá nýja heiminum en þeim gamla. Nýjungagirni og þróunar og rannsóknarstarf er það sem skýrir munin. Til að mynda er mun meiri fjármunum og tíma er varið í rannsóknir á sviði víngerðar í Bandaríkjunum og Ástralíu en í Frakklandi og Ítalíu sem þó eru stærstu vínframleiðendur heims. Einnig eru framleiðendur Nýja heimsins óhræddir við nýjungar og hika ekki við að framleiða vín með áður óþekktum berjablöndum eða sem á annan hátt brjóta víngerðarhefðir. Jafnframt hafa framleiðendur nýja heimsins tekið það besta úr hefðum gamla heimsins og fært í nýjan búning í sinni víngerð. Þar á meðal eru framleiðendur eins og Robert Mondavi í Californiu, Penfolds-keðjan í Ástralíu og fleiri. Á sama tíma eru framleiðendur Gamla heimsins reyrðir í reglugerðir og hefðir sem erfitt er að brjótast út úr, án þess að það komi niður á verði framleiðslunar.

Þó virðist vera að rofa til í þeim efnum og hafa nokkrir framleiðendur í Evrópu gert tilraunir til að brjóta upp hefðir evrópskrar víngerðar. Þar fara fremstir í flokki spánski framleiðandinn Miguel Torres og hinn Ítalski Antinori en þessir framleiðendur hafa leitað nýrra leiða til að framleiða gæðavín. Einnig er samstarf Mouton Rochild og Robert Mondavi við gerð vínsins Opus 1 athyglisvert en þar er á ferðinni vín sem byggir á víngerðarhefð frá Bordeaux en framleitt í Napa Valley.

Miguel Torres hefur bæði flutt franska víngerð inn til Spánar og blandað henni þar við spánska víngerðarhefð, auk þess að reyna nýjar aðferðir bæði á spáni í chile og í Kaliforníu. Vín á borð við Mas La Plana sem er arftaki Gran Coronas Black Label, þar sem blandað er Tempranillo og Cabernet Sauvignion þar sem Cabernet er ráðandi og framleitt er í Penedes, er dæmi um vel heppnaða afurð þessarar tilraunastarfsemi. Þetta vín heitir eftir vínekrunni þaðan sem uppskeran kemur frá sem er 29 hektarar að stærð. Þá er Marimar Torres Estate Pinot Noir sem framleitt er í Green Valley í Kaliforníu og Manso De Velasco sem framleitt er úr Cabernet Sauviginion þrúgum í Curico dalnum í Chile einnig áhugavert afsprengi af starfi Torres. Áhugavert er að skoða heimasíðu fyrirtækisins: http://www.torreswines.com

Antinori er einn fárra ítalskra framleiðenda sem hefur leyft sér að brjóta þær reglur sem gilda um víngerð í Toscana þegar um framleiðslu gæðavína er að ræða þrátt fyrir að það leiði til þess að vínin séu flokkuð sem „Vino tavola“ eða borðvín. Dæmi um þetta er Tignanello sem er gert úr 80% Sangiovese, 15% Cabernet Sauvignon og 5% Cabernet Franc. Þrúgurnar í Tignanello garðinum eru týndar seint miðað við það sem gengur og gerist í Toscana. Cabernet þrúgurnar eru týndar í kringum 20. september og Sangiovese um viku síðar. Frekari upplýsingar um þetta vín, önnur vín fyrirtækisins og fyrirtækið sjálft er að finna á heimasíðu þess: http://www.antinori.it

Allir athugasemdir vel þegnar!

%d bloggers like this: