Púrtvín

Ekta púrtvín koma frá Portúgal, nánar tiltekið frá Douro-dalnum í norðurhluta Portúgal, alveg eins og ekta kampavín koma aðeins frá héraðinu Champagne í Frakklandi. Líkt og með kampavín þá eru víða um heim framleidd vín á sama hátt og púrtvín eru framleidd, en þau eru ekki Púrtvín og – þó svo að þau geti verið ilmrík og bragðmikil – þá ná þau ekki alveg sama jafnvægi milli margbreytileika og glæsileika, krafts og fínleika líkt og ekta púrtvín.

Gróflega skiptast púrtvín í tvo meginflokka: Árgangspúrtvín og viðarpúrtvín (sjá hér að neðan). Árgangspúrtvín, sem eru u.þ.b. 2 % allrar púrtvínsframleiðslunnar, eru látin þroskast tiltölulega stuttan tíma í flösku en aðalþroskinn á sér stað eftir átöppun og tekur mörg ár. Reyndar segir í portúgölskum lögum, að Árgangspúrtvín verði að tappa á flöskur „milli 1. júlí á öðru ári eftir uppskeru og 30. júní á þriðja ári, talið frá uppskeruári,“ – þ.e. Árgangspúrtvín eru sett á flöskur tveimur árum eftir árganginn. Viðarpúrtvín eru öll púrtvín sem ekki eru Árgangspúrtvín. Þau þroskast í nokkur ár í flöskunni og eru yfirleitt tilbúin til neyslu þegar þau koma á markað. Til viðarpúrtvína teljast m.a. Ruby, Tawny, hvít púrtvín, Vintage Character púrtvín, LBV (Late Bottled Vintage), „Crusted“ púrtvín“ og Colheita púrtvín.

Á Árgangspúrtvíni verður að standa „Vintage Port“ („Vintage Porto“) á merkimiðanum með stórum stöfum, í sömu línu og ekkert má vera á milli þessara tveggja orða. Það er nauðsynlegt til að greina Árgangspúrtvín frá öðrum (viðar) púrtvínum sem eru árgangsmerkt (t.d. LBV og Colheita – sjá neðar). Árgangspúrtvín hafa yfirleitt miðlungs- til mikla fyllingu, kröftug og ríkuleg og ólík öðrum púrtvínum. Þumalputtareglan er sú að Árgangspúrtvín þurfi a.m.k. 10-15 ára (frá árgangsárinu) þroska í flöskunni áður en þess er neytt. Árgangspúrtvín geta þroskast mjög lengi og ekki er óalgengt að sannir púrtvínsunnendur og vínsafnarar geymi þau í þrjá til fjóra áratugi í vínkjöllurum sínum.

Flest Árgangspúrtvín eru samsett úr þrúgum frá nokkrum vínekrum – eitt svæði er valið sem grunnur, annað fyrir stíl, enn eitt fyrir ilm (búkett) o.s.frv. Líkt og með kampavín, þá er góð blöndun lykillinn að góðu púrtvíni. Undantekningin hefur þó verið Quinta do Noval, sem framleiðir Árgangspúrtvín frá einni vínekru, eða quinta. Aðrir púrtvínsframleiðendur eru þó farnir að feta í þeirra fótspor og framleiða einnar-vínekru púrtvín. Yfirleitt koma þau frá þeirra bestu vínekru, en ekki á bestu árunum. Ólíkt því sem (oftast) gildir um önnur léttvín á borð við Cabernet, þar sem vín frá einni vínekru eru betri en „almenn“ vín (blöndur), þá eru einnar-vínekru púrtvín sjaldan jafn góð og árgangsblöndur sama framleiðanda. Aftur er Quinta do Noval undantekningin, ásamt nokkrum öðrum framleiðendum sem búa til Árgangspúrtvín úr þrúgum frá einni vínekru (t.d. Quinta do Crasto, Quita do Infantado, Quinta de la Rosa).

Munurinn á milli Árgangspúrtvína frá mismunandi framleiðendum er einungis mismunandi „stíll“ framleiðendanna, líkt og þurr kampavín eru mismunandi eftir því frá hvaða framleiðanda þau koma, og svo einnig munur á milli árganga. Líkt og með árgangskampavín, þá er ekki lýst yfir árgangi á hverju ári, heldur aðeins í bestu árum. Sumir árgangar teljst hafa meiri „kvenlegan“ stíl, s.s. 1975 og 1983, á meðan aðrir árgangar teljast hafa meiri „karlmannlegan“ stíl (1977, 1982). Hver framleiðandi hefur sinn stíl, sem er greinilegur í öllum púrtvínum hans, allt frá Ruby til Árgangspúrtvína.

Hvít púrtvín eru tvenns konar, þurr og sæt. Þurru vínin eru til þess að gera ný í púrtvínssögunni og vinsældir þess hafa aukist jafnt og þétt í Portúgal, þar sem það er drukkið sem lystauki. Sætu vínin eru hefðbundnari, og þó að vinsældir þess hafi dvínað í Portúgal, þá er það enn mjög vinsælt annars staðar í Evrópu. Hvít púrtvín þroskast yfirleitt ekki eftir að þau hafa verið sett á flöskur, og þurra vínið geymist sjaldnast mjög lengi.

Ruby púrtvín eru yfirleitt yngstu púrtvínin sem hver framleiðandi býður upp á. Í þeim er áberandi sætleiki og ávextir, og þau eru oft borin fram kæld sem fordrykkir á sumrin, og á enskum krám er vinsælt að blanda þeim út í sítrónusafa. Þau hæfa vel sem eftirréttavín með ávöxtum. Þau þroskast mjög lítið eftir að þau hafa verið sett á flöskur, en þau geymast hins vegar vel og lengi eftir að flaskan hefur verið opnuð.

Yfirlit yfir Púrtvín

I. Árgangspúrtvín

II. Viðarpúrtvín
A. Hvít púrtvín
1. Þurr
2. Sæt
B. Ruby púrtvín
1. „Regular“ Ruby púrtvín
2. Vintage Character púrtvín
3. Late Bottled Vintage púrtvín
4. „Crustin“ eða „Crusted“ púrtvín
[púrtvínin í 2.-4. eru stundum flokkuð með árgangspúrtvínum.]
C. Tawny púrtvín
1. Án aldursmerkingar
a. Ekta Tawny púrtvín.
b. Blanda af hvítu og ruby (til að búa til tawny).
c. Eldra „reserve“ tawny púrtvín (án aldursmerkingar).
2. Aldursmerkt
a. 10-ára tawny púrtvín
b. 20-ára tawny púrtvín
c. 30-ára tawny púrtvín
d. 40-ára tawny púrtvín
e. Colheita púrtvín (árgangs-merkt tawny púrtvín)

Mikilvægustu þrúgurnar í rauð púrtvín eru Touriga Nacional (einnig algeng í áströlskum púrtvínum), Touriga Francesca, Tinta Cão, Tinta Roriz (betur þekkt sem Tempranillo á Spáni) og Tinta Barroca (mikið notuð í suður-afrísk púrtvín). Einnig er notast við Mourisco Tinto, Tinta Amarella, hina sjaldgæfu Bastardo (einnig notuð í Madeira), Tinta Francisca og Sousão.

One comment on “Púrtvín
  1. Sæll Eiríkur.

    Ég fékk í arf frá Spáni Torres vínflösku árgerð 1956.
    Mig langar að koma henni í verð, hvernig sný ég mér í því?

    Kv Ásgeir

Allir athugasemdir vel þegnar!

%d bloggers like this: