Rioja

Í Rioja-héraðinu sunnan Cantabria-fjallanna á Spáni hafa menn framleitt vín í yfir 1.000 ár.  Fyrstu heimildir um víngerð eru taldar vera frá árinu 873 e.Kr. og fyrstu reglurnar um víngerð í héraðinu voru settar árið 1102 af konunginum yfir Navarra og Aragóníu.

Rioja er eitt af minnstu héruðum Spánar.  Það er aðeins um 5 þúsund ferkílómetrar að flatarmáli og íbúar rúmlega 300 þúsund, en vínekrurnar, sem eru um 14 þúsund, þekja um 500 ferkílómetra.  Vínframleiðsla er líka ein af mikilvægustu atvinnugreinunum í héraðinu og þar eru á hverju ári framleiddir um 250 milljónir lítra af víni, einkum rauðvíni.  Þrjú helstu svæðin í Rioja eru:

  • Rioja Alta – vesturhluti Rioja, liggur hærra en hin héruðin.  Hér eru einkum framleidd vín í „Gamla-heims“ stílnum, þó heldur séu þau í léttari kantinum.
  • Rioja Alavesa – býr við svipað loftslag og Alta, en vínin hér hafa þó meiri fyllingu og sýruinnihald.
  • Rioja Baja – hér er loftslagið líkara Miðjarðarhafsloftslaginu og hér er heitara og þurrara en í öðrum héruðum Rioja.  Í raun geta hér orðið allvarlegir þurrkar á sumrin, sem geta stefnt vínuppskerunni í hættu.  Baja-vín eru dökk og geta haft mjög hátt áfengishlutfall (allt að 18%!).  Þau eru þó frekar ilm- og sýrusnauð og því að mestu notuð til íblöndunar við þrúgur frá öðrum héruðum Rioja.

Eins og fyrr segir er meginþorra Riojavína rauð, eða um 85%.  Vínin eru flest hver blönduð úr nokkrum þrúgum, þar sem uppistaða rauðvínanna er Tempranillo (um 60%) ásamt Garnacha (um 20%) og í minna magni Mazuelo og Graciano. Tempranillo gefur víninu bragð og möguleika á að þroskast frekar, Garnacha færir því fyllingu og áfengismagn, Mazuelo kryddkeim og Graciano bætir ilminn.

Hvítvínin eru að mestu leyti gerð úr Viura sem blandað er saman við Malvasia og Garnacha Blanca.  Viura færir víninu ávaxtakeim, sýru og ilm, Malvasia færir því ilm og Garncha blanca fyllingu.

Rósavín eru einkum gerð úr Garnacha.

Það sem einkum einkennir Rioja-vín eru eikaráhrifin, sem koma frá Bordeaux.  Upphaflega notuðust vínbændurnir einkum við franska eik en vinsældir amerískra eikartunna hafa aukist síðustu áratugi, en nú er meira að komast í tísku að blanda saman amerískri og franskri eik.  Áður fyrr lágu vínin árum saman í tunnum áður en þau voru sett á flöskur, jafnvel í 15-20 ár!  Árið 1983 setti Marques de Murrieta á markað 1942-árganginn af gran reserva, sem hafði verið á tunnu í 41 ár!

Flokkun

  • Rioja – yngstu vínin, aðeins um 1 ár í tunnum áður en þau eru sett á markað.
  • Crianza – þarf að fá að þroskast í a.m.k. 2 ár, þarf af 1 ár á tunnu.
  • Reserva – þarf að þroskast í minnst 3 ár, þarf að 1 ár á tunnu.
  • Gran Reserva – þarf að vera minnst 2 ár á tunnu og 3 ár í flösku áður en það fer á markað.

Reserva og Gran Reserva eru ekki gerð á hverju ári (í lélegu árferði eru aðeins gerð Rioja og Crianza).  Consejo kallast vín sem ná því ekki alveg að kallast Crianza, þar sem tíminn á tunnu er innan við eitt ár, oft aðeins 2-3 mánuðir.  Þetta kemur ekki fram á flöskumiðanum en gæti staðið á flöskuhálsinum eða á miðanum aftan á flöskunni.

Allir athugasemdir vel þegnar!

%d bloggers like this: