Rónardalur

Rónardalurinn liggur í suðausturhluta Frakklands, fyrir sunnan Beaujolais.  Þar er yfirleitt sólríkt og hlýtt og segja má að vínin endurspegli veðurfarið: Vel fyllt, kröftug og með hátt áfengishlutfall.  Stærstur hluti framleiðslunnar (um 95%) kemur frá suðurhluta Rónardals, þar sem hin afkastamikla Grenache-þrúga er allsráðandi.  Vínin frá suðurhluta Rónardals flokkast skv. AOC-reglunum í Côtes du Rhône (þaðan koma mörg af bestu, ódýru vínum heims), Côtes du Ventoux, Côtes du Rhône-Villages (17 þorp sem gera aðeins betri og dýrari vín en Côtes du Rhône), Gigondas og Vacqueyras, en tvö síðastnefndu voru áður Côtes du Rhône-Villages sem voru hækkuð upp og hafa nú eigin skilgreiningu.  Frá suðurhlutanum koma rauðvín, hvítvín og rósavín.  Konungurinn í suðurhluta Rónardals er þó tvímælalaust Châteauneuf-du-Pape.  Þau er flest blönuð rauðvín, þar sem heimilt er að notast við allt að 13 ólíkar þrúgutegundir, en Grenache, Mourvédre og Syrah eru mest áberandi.  Vínin eru kröftug, með mikla fyllingu og nokkuð hátt áfengishlutfall, og góða árganga er hægt að geyma í 15-20 ár.  Þekktustu vínin frá Chateauneuf-du-Pape eru líklega Château Rayas (100% Grenache) og Château Beaucastel.

Frá norðurhluta Rónardals koma þó bestu Rónarvínin, Côte Rôtie og Hermitage, sem bæði eru gerð úr Syrah.  Þekktasti framleiðandinn í Côte Rôtie er án efa E. Guigal, en einnar-ekru vín hans – La Mouline, La Landonne og La Turque – eru stórkostleg bæði í gæðum og verði!  Hermitage-vínin eru þó langlífust og geta geymst í 30-40 ár.  Þekktastir í Hermitage eru Jean Louis Chave, M. Chapoutier og Paul Jaboulet Ainé.  Crozes-Hermitage er eigið svæði innan Hermitage sem einnig getur gefið af sér stórfengleg vín en þau kosta þó ekki jafn mikið og vínin frá Hermitage.  Frá norðurhlutanum koma einnig hvítvín – hvítt Hermitage er gert úr þrúgunum Marsanne og Rousanne, þau eru þétt og öflug og geta þurft allt að 8-10 ár til að ná fullum þroska.  Condrieu er gert úr 100% Viognier, jafnan ilmríkt með miklum blómakeim og ávaxtabragði, en njóta sín best þegar þau eru ung.

Allir athugasemdir vel þegnar!

%d bloggers like this: