Saga bjórsins

Eftir Guðjón Gunnarsson

Uppruna bjórsins er að finna einhversstaðar langt aftur í fornöld. Hægt er að gera sér í hugarlund hvernig þessa uppgötvun bar að garði. Einhver hirðinginn hefur fyrir slysni uppgötvað að þegar villt bygg var geymt blautt þá gerðist eitthvað merkilegt við þessa súpu. Og þegar hún var þynnt þá varð þetta hinn ágætasti mjöður sem hefur kallað fram sömu áhrif þá og hann gerir nú. Maður lítur lífið allt bjartari augum og allir verða glaðir og ánægðir.

Sumir vísindamenn telja að þarna sé jafmvel komin skýringin á því að hirðingjar létu af hirðingjalífi sínu, gerðust bændur og fóru að rækta bygg og fleira korn. Meirihluti vísindamanna telur reyndar að ástæðan hafi verið sú að þeir vildu búa til brauð en hér verður ekki lagt mat á hvor skýringin er sennilegri.

Sögu bjórsins má byrja að lesa 6000 f.kr. á leirtöflum. Bjórgerð var þá oftar en ekki í höndum presta og var hann notaður við fórnarathafnir. 4000 f.kr. brugguðu Babylonar í að minnsta kosti 16 teg. bjóra og í Egyptlandi til forna var bjór búinn til úr hálfbökuðu brauði (aðferð sem enn er notuð í Rússlandi og heitir afurðin kvass). Það er nú hætt við að bjórinn sem drukkinn var á þessum tímum myndi bragðast einkennilega ef við hefðum möguleika á að bragða hann.

Í upphafi miðalda má telja að við sjáum fyrst bjór sem svipar eitthvað til þess sem við drekkum í dag. Þar ræður mestu að byrjað er að nota humla í bjórinn. Humlar verða fljótlega ráðandi bragðefnið og gefa bjórnum þennan einkennandi biturleika sem við könnumst svo vel við. Önnur ástæða fyrir vinsældum humla er að í þeim er að finna efni sem hamla vexti baktería og gera það að verkum að bjórinn geymist betur.

Á miðöldum var bjór bruggaður í heimahúsum og við hirðir eða munkaklaustur. Bruggunin í heimahúsunum var frumstæðari, en var samt ríkur þáttur í lífi fólks á þessum tíma. Ástæðuna má kannski að hluta rekja til þess að drykkjarvatn á þessum tímum var oftar en ekki varasamt. Gerjun drepur eða hamlar vöxt margra sjúkdómsvaldandi baktería, þannig að allir í fjölskyldunum drukku bjór, jafnvel börnin.

Það var í munkaklaustrunum að vísindalegri nálgun að bjórbruggun hófst. Heilagur Benedikt (480 – 547 e.kr.) var faðir nútíma klausturslífs. Regla hans kváði á um að klaustrin væru sjálfum sér næg um mat og drykk. Í fyrstu klaustrunum á Ítalíu ræktuðu munkarnir vínber og framleiddu vín úr þeim. Þegar reglan færðist norður fyrir alpana þá varð loftslagið hliðhollara byggi og bjórbruggun. Þar sem kirkjan og klaustrin voru á þessum tíma vagga rannsókna og lærdóms, voru þau einnig fæðingarstaður bjórvísinda.

Anga af þessari bjórbruggunarhefð munka er ennþá að finna í heiminum í dag. Nálægt Munchen, höfuðborg Bæjaralands í Þýskalandi, (nafn borgarinnar þýðir einmitt „munkur“) er að finna einhverja elstu bruggverksmiðju í heimi, eða frá því í kringum 1040.

Munkarnir héldu til í einangrun fjallana í bæversku ölpunum. Þeir grófu bjórkjallara undir klaustrin. Í þessa kjallar var hægt að setja ís frá ám og vötnum í nágrenninu. Þessir kjallarar voru notaðir til að geyma bjór og þá sérstaklega yfir sumartímann. Það sýndi sig síðan að bjórinn sem þannig var geymdur (þýska orðið er „lager“) varð stöðugri. Gerinn sökk til botns og má segja að þar með hafi hafist ræktun á botn-gerjandi ger. Það er talið að í kringum 1420 hafi fyrstu lager bjórarnir verið bruggaðir.

Þýsku Sedlmayr feðgarnir eiga stóran þátt í breiða út hróður lager bjóra. Eftir dauða föður síns þá hóf Gabriel Sedlmayr II að nútímavæða bruggverksmiðjuna sem hann tók við af föður sínum. 1844 hóf hann að nýta gufuorkuna til þess að auka afköst og auðvelda bjórframleiðslu. Lager bjórgerð tók síðan stórt skref fram á við seinna á öldinni þegar kælitæknin kemur til sögunnar, þá er orðið hægt að brugga þennan vinsæla lager bjór hvar sem er.

Margt fleira áhugavert væri hægt að tína til úr sögu bjórbruggunar. Nægir þar að nefna einangrun hreins „kúltúrs“ af gersveppum hjá Carlsberg í Danmörku og söguna á bak við Pilsner bjórinn. Þetta verður þó látið nægja í bili.

Allir athugasemdir vel þegnar!

%d bloggers like this: