Shiraz/Syrah

Sagan segir að Shiraz-vínviðurinn hafi fyrst verið ræktaður í borginni Shiraz í Persíu og þaðan hafi hann borist til Evrópu. Hann hafi síðan verið ræktaður í Rhône frá því árið 600 fyrir Krist, en Hermitage er talinn vera elsti víngarður Frakklands.

Það er þó aðeins á síðustu 25 árum að vínáhugamenn hafa farið að gefa Shiraz gaum, og nú er Shiraz komið í tísku í vínheiminum, einkum í Bandaríkjunum – það sést m.a. á því að ræktunarsvæði þess þar hafa meira en tvöfaldast á síðustu tveimur árum og við bendum á umfjöllun WineSpectator 30. apríl ’99.

Shiraz-vínviður dafnar best í þurru, heitu loftslagi og gerir ekki mjög miklar kröfur til jarðvegsins. Þó skiptir miklu máli að veðurfar sé hagstætt þegar vínviðurinn blómgast, ellegar er hætta á að uppskeran verði rýr. Kjöraðstæður eru í norðurhluta Rhône, og má þar nefna vín frá Hermitage, Côte-Rôtie o.fl., og í Ástralíu, en þar á Shiraz sér langa sögu og er útbreiddasta þrúgan. Kalifornía og Suður-Afríka eru að koma inn með Shiraz, svo og Argentína, Ítalía og Nýja Sjáland.

Í Ástralíu er Shiraz mest ræktað í Clare Valley, Barossa Valley og McLaren Vale, sem eru þurrari og heitari en Rhône. Í Bandaríkjunum er hægt að finna Shiraz í flestum vínhéruðunum, s.s. Napa Valley, Russian River Valley o.fl.

Shiraz er sjaldan eins tannínskt og Cabernet Sauvignon en litur þess er oftast jafn djúpur og bragðið margslungið. Þetta gerir það að verkum að Shiraz, líkt og Pinot Noir, fellur vel að fjölbreyttum mat – jafnt sjávarréttum sem nautasteikum.

Helsta bragð og lykt vína sem eru framleidd úr Shiraz eru krydduð sólber (blackberry), plóma (plum) og pipar. Einnig finnst oft lakkrís, súkkulaði og kaffi. Hitastig á meðan þrúgan vex hefur töluverð áhrif í bragði, heitt loftslag stuðlar að mýkra bragði á meðan þrúgan sem vex í kaldara loftslagi verður mun kryddaðri.

Nokkur Shiraz-vín sem eru fáanleg í Heiðrúnu (flest):

Áströlsk:

 • Penfolds Shiraz South Australia Grange – líklega frægasti og besti Shirazinn.
 • Rosemount Shiraz
 • Lindemans Bin 50 Shiraz
 • Wolf Blass Shiraz South Australia Presidents Selection
 • Wolf Blass Shiraz South Australia Red Label
 • Black Opal Shiraz South Eastern Australia
 • Hardy’s Eileen Hardy Shiraz
 • McGuigan Black Label Shiraz
 • Penfolds Shiraz Bin 128
 • Penfolds Bin 28 Kalimna Shiraz
 • Grant Burge Old Vine Shiraz

Frönsk:

 • Côte-Rôtie
 • Crozes-Hermitage
 • Hermitage

Önnur:

 • Geyser Peak Shiraz – Bandarískt
 • Colvecchio – Ítalskt
 • Luigi Bosca – Argentínskt

Allir athugasemdir vel þegnar!

%d bloggers like this: