Suður-Afríka – Landið við Höfðann

Vínframleiðsla í Suður-Afríku á sér langa og merka sögu, og það er eiginlega eina landið í heiminum þar sem hægt er að tilgreina upp á dag hvenær saga víngerðar í landinu hófst.  Árið 1652 stigu hollenskir hermenn (málaliðar) á land við Góðravonahöfða í því skyni að mynda áningarstað fyrir skip hollenska Austur-Indíafélagsins.  Þar sem aðstæður virtust ákjósanlegar fyrir vínrækt var þegar sent eftir vínvið frá Evrópu (vín var einnig notað til að fyrirbyggja skyrbjúg á þessum tíma).  Annan febrúar 1659 var fyrsta uppskeran (líklega þrúgurnar muscat de frontignan og palomino) tilbúin til pressunar og gerjunar.  Þótt útkoman hafi kannski ekki verið mjög beysin á okkar mælikvarða þá  þótti hún það góð að ekrurnar voru þegar stækkaðar og framleiðslan aukin.  Þegar skipherrann Simon van der Stel tók við stjórn nýlendunnar gaf hann þegar út reglur fyrir víngerðina og jók það mjög á gæði framleiðslunnar.  Sjálfur ræktaði van der Stel á eigin vínekrum sem hann nefndi Constantia.  Árið 1691 var van der Stel skipaður fyrsti landstjóri nýlendunnar og stuttu síðar hafði víngerð hans náð svipuðum gæðum og hjá þekktustu vínum í Evrópu.  Vin de Constance urðu dýr og eftirsótt, einkum við evrópsku hirðirnar og voru lengi vel uppáhaldsvín Napóleons (stórir skipsfarmar voru síðar sendir til St. Helenu þar sem hann dvaldi í útlegð síðustu æviár sín).

Önnur mikilvæg tímamót í sögu víngerðar í Suður-Afríku urðu um 1690 þegar rúmlega 200 franskir Húgenottar komu til Suður-Afríku og hófu vínrækt þar sem nú er Franschhoek-dalur.  Nokkrir þeirra voru vel að sér í víngerð og víngarðar þeirra urðu brátt í miklum metum.  Afkomendur þeirra gegna enn í dag stóru hlutverki í suður-afrískri víngerð.

Í upphafi 20. aldar voru skilyrði til víngerðar almennt slæm um allan heim, eftirspurn lítil, og útflutningur nánast lagðist af.  Framboð var langt umfram eftirspurn og margir vínbændur urðu að hætta búskap.  Árið 1918 stofnuðu vínbændur með sér samtök, Ko-operatieve Wijnbouwers Vereniging (KWV), sem ætlað var að bjarga suður-afrískri vínframleiðslu, og brátt höfðu 95% vínbænda gerst félagar í samtökunum.  Það var þó ekki fyrr en 6 árum síðar að samtökin fengu leyfi til að ákveða sjálf verð á framleiðslunni og hagur vínbænda fór að vænkast á ný.  Gæðin jukust þó ekki að sama skapi og 1940 fengu samtökin nánast alræðisvald hvað varðar víngerð í Suður-Afríku.  Verðið var miðstýrt, allir urðu að lúta sömu reglum og magn framleiðslunnar hjá hverjum bónda var bundið kvóta.  Kvótakerfið var svo lagt af árið 1992 og fyrst þá varð bragarbót á víngerðinni – bændur breyttu margir um áherslu og fóru að prófa nýjar þrúgur og lögðu meiri áherslu á gæði en magn.  Árið áður hafði aðskilnaðarstefnan verið lögð niður og með því jókst eftirspurn og útflutningur til muna.

Þær þrúgur sem við þekkjum best – Cabernet, Merlot, Shiraz, Chardonnay og Sauvignon – voru heldur sjaldséðar fyrir tveimur áratugum en ræktun þeirra hefur aukist mjög síðan þá.  Nú er Cabernet Sauvignon algengasta rauða þrúgan ásamt Merlot, Shiraz, Cinsault og Pinotage.   Pinotage er blendingur Pinot Noir og Cinsault og var áður algengasta rauða þrúgan í Suður-Afríku.  Þegar vel er haldið utan um víngerðinni gefur hún af sér vín með höfugan ilm af kirsuberjum, villtum jurtum, furuhnetum, kanil og jafnvel banönum!  Sumir segjast meira að segja finna smá keim af aceton.  Margir vínbændur beittu þó röngum aðferðum við ræktunina og víngerðina og útkoman varð því óspennandi vín sem hlutu slæma einkunn hjá gagnrýnendum og ræktun Pinotage lagðist nánast af á tímabili.  Nokkrir framleiðendur sem kunnu að ná því besta út úr þrúgunni, einkum Kanonkop, héldu þó tryggð við þrúguna og héldu áfram að framleiða stórkostleg vín.  Á seinni árum hefur ræktun Pinotage aftur aukist og er það vel.  Blöndur Pinotage, Cabernet Sauvignon og Merlot hafa einnig vakið lukku og útkoman verið góð.

Af hvítum þrúgum er Chenin Blanc lang algengust ásamt Colombard og Sultana, en ræktun Chardonnay og Sauvignon Blanc eykst jafnt og þétt.

Stellenbosch og Paarl eru þekktustu og mikilvægustu vínræktarsvæði Suður-Afríku.  Stellenbosch er þeirra þekktast og samnefndur bær í hjarta héraðsins er næstelsti bær Suður-Afríku, stofnaður af áðurnefndum Simon van der Stel.  Í bænum er þekktur háskóli þar sem flestir suður-afrískir vínbændur hafa hlotið menntun sína í víngerð.  Þekktustu framleiðendur í Stellenbosch eru Jordan, Meerlust, Rust en Vrede, Neil Ellis og Kanonkop.  Paarl framleiðir um einn fimmta hluta alls víns sem framleitt er í Suður-Afríku.  Áður var mikið ræktað Chenin Blanc, Colombard og Palomino, sem einkum var notað við Sérrígerð, og einnig var framleitt talsvert af púrtvíni í Paarl.  Nú er meira framleitt af þurrum hvítvínum á borð við Chardonnay og Sauvignon Blanc, ásamt því að Chenin Blanc er nú meira notað við hvítvínsframleiðslu.  Í Paarl ríkir miðjarðarhafsloftslag og þar er nokkuð hlýrra en í Stellenbosch.  Þar eru einnig framleidd rauðvín og eru Bordauxþrúgurnar þar mest áberandi.  KWV hefur höfuðstöðvar sínar í Paarl.  Þekktustu framleiðendur í Paarl eru Fairview, Brahms, Veenwouden og Rupert & Rothschild.

Önnur mikilvæg héruð eru Worcester, Robertson, Orange River og Swartland.

Allir athugasemdir vel þegnar!

%d bloggers like this: