Super-Toscana

Toscana er eitt þekktasta vínsvæði Ítalíu og þar eru framleidd mörg stórkostleg vín.  Helstu vínhéruðin eru Chianti, Chianti Classico og Montalcino, og vínin eru síðan flokkuð samkvæmt gildandi reglum sem Denominazioni di origine controllata (DOC) eða Denominazioni di Origine Controllata e Garantita (DOCG).

Á áttunda áratug síðustu aldar hafði dregið talsvert úr sölu á Toscana-vínum og var einkum kennt um að vínin þóttu ekki nógu góð og hendur framleiðenda bundnar af gildandi reglugerðum.  Ýmsir vínframleiðendur töldu sig þó geta framleitt betri vín, og kom þá fram nýr flokkur vína sem fengu viðurnefnið “super-Toscana” eða “ofur-Toscana”, sem framleidd voru utan DOC/DOCG-flokkunarinnar en voru þó mikil gæðavín og seldust fyrir hátt verð.  Fremstur í flokki fór Piero Antinori, sem árið 1978 setti á markað Tignanello, árgang 1971, sem var blanda Sangiovese og Cabernet Sauvignon.  Aðrir framleiðendur fylgdu á eftir með gæðavín sem brátt seldust fyrir mun hærra verð en fékkst fyrir mörg af þekktustu Chianti-vínunum.  Þessi bylgja barst svo einnig til annarra svæða í Toscana og einnig til Piedmont og Veneto, en samkvæmt reglugerðum töldust vínin þó flokkast undir vino di tavola, sem er lægsta flokkunarstigið í ítalskri vínlöggjöf.  Þegar vegur þessara vína fór ört vaxandi sá menn sig þó knúna til að breyta reglugerðunum, og mörg “ofur-Toscanavín” geta í dag kallast DOC/G Chianti, en margir kjósa þrátt fyrir það að halda sér innan ramma Indicazione Geografica Tipica (IGT) sem er lægri, en um leið rýmri flokkun þar sem þess er aðeins krafist að þrúgurnar sem fara í vínið komi frá héraðinu.

Helstu “ofur-Toscana” vínin eru (framleiðandi, flokkun):

* Tignanello (Antinori, IGT) – Sangiovese, Cabernet Sauvignon, Cabernet Franc.  Eitt fyrsta og um leið þekktasta “ofur-Toscana” vínið.  Aðeins framleitt þegar árgangur er góður. Fyrsti árgangur 1971.  Lenti í 4. sæti yfir vín ársins hjá Wine Spectator árið 2007.

* Sassicaia (Tenuta San Guido, DOC) – Cabernet Sauvignon og Cabernet Franc. Fyrsta eiginlega “ofur-Toscana” vínið en hlaut þó ekki neina sérstaka athygli fyrr en Tignanello kom fram.  Mun vera fyrirmynd Tignanello.  Fyrstu árgangar komu strax eftir síðari heimstyrjöld, en 1968 fyrst til að vekja athygli.

* Cepparello (Isole e Olena, IGT) – Sangiovese. Fæst í vínbúðum ÁTVR (Kringlan og Heiðrún).

* Ornellaia (Tenuta dell’Ornellaia, DOC) – Cabernet Sauvignon, Merlot og Cabernet Franc (“Bordeaux-blandan”).  Vín ársins hjá Wine Spectator árið 2001 og á topp-tíu árið 2007.

* Solaia (Antinori, IGT) – Cabernet Sauvignon, Sangiovese og Cabernet Franc. Vín ársins hjá Wine Spectator árið 2000. Aðeins framleitt þegar árgangur er góður.

* Casalferro (Barone Ricasoli, IGT) – Sangiovese og Merlot.  Fæst í vínbúðum ÁTVR (Kringlan og Heiðrún)

* Flaccianello della Pieve (Fontodi, vino di tavola) – Sangiovese. Fæst í vínbúðum ÁTVR (ýmsar verslanir).

Allir athugasemdir vel þegnar!

%d bloggers like this: