Tannín

Fáðu þér sopa af sterku, svörtu tei og taktu eftir hvernig maður verður stamur í munninum og tungan nánst límist við góminn.

Fáðu þér svo ungan Cabernet Sauvignon – líklega upplifir þú eitthvað svipað.

Það sem þú ert að bragða eru tannín, náttúrlegt efni sem stundum finnst í trjáberki og í hýði, steinum og stilk sumra ávaxta – einkum sumra rauðra vínberja.

Tannín eru notuð til að súta dýrahúðir og breyta í leður, og það er eiginlega það sama sem á sér stað þegar tannínin í tei og víni setjast á slímhúðina í munninum.

Tannín í vínum koma einkum frá berinu, þó svo að tannín geti einnig bæst í vín þegar þau eru látin liggja í nýjum eikartunnum. Mikið af tannínum í ungu víni dregur nokkuð úr ánægjunni af því að drekka vínið og þess vegna eru mörg vín – einkum rauð Bordeaux, aðrir ungir Cabernet Sauvignon og svo Nebbiolo-vín frá norð-vestur Ítalíu – geymd í vínkjöllurum þar til þau þroskast. Við þroskun vínsíns mynda tannínin fjölliður (polymer – stórar sameindir með mörgum tannín-keðjum) og þess vegna verður botnfall í flöskunni þegar bragðið breytist frá úr því að vera hart og stamt yfir í að vera mjúkt og flókið. Tannín verka einnig sem andoxunarefni og forða vínunu frá rotnun þegar það er að þroskast.

Hins vegar verða ekki öll tannísk vín flókin og þokkafull með þroskun. Ef ungt vín er eingöngu tannískt og skortir allan ávöxt þá er það ekki líklegt til að verða merkilegra með aldrinum. Jafnvægi milli tannína og ávaxta er því lykilatriði.

Ef þú ætlar þér að drekka vín áður en fullum þroska er náð þá þarf það að fá að „anda“ og allra helst ætti að umhella því (með miklum gusugangi) til að taka mesta broddinn úr því. Tannísk vín henta vel með rauðu kjöti (sem þarf þá að vera hæfilega hrátt).

Allir athugasemdir vel þegnar!

%d bloggers like this: