Vín með grillinu

Þegar kemur að matseld við grillið þá erum við Íslendingar gjörsamlega fanatískir og sér á báti, a.m.k. ef miðað er við nágranna okkar á Norðurlöndunum. Við grillum í tíma og ótíma og ekkert er ómögulegt þegar kemur að grillinu. Sitt sýnist þó hverjum hvað hæfir best að drekka með grillmat.

Sjálfur er ég engin undantekning. Ég grilla 4-5 sinnum í viku yfir sumartímann, og þó að uppistaðan sé nokkuð hefðbundin þá kemur samt fyrir að ýmsar nýjungar séu prófaðar.

Þegar kemur að því að velja vín með matnum hefur matreiðsluaðferðin mikið að segja, og mín meginregla er að vínið þarf að vera í sama stíl og maturinn. Grillmatur er oft vel kryddaður og bragðmikill, hefur oft verið lagður í kryddlög eða smurður með grillsósum af ýmsum toga.

Grillsósurnar eru oft sætar og kraftmiklar og þá þarf vínið að vera í sama stíl – kraftmikið og helst nokkuð ávaxtaríkt, kryddað, tannískt og með góðri sýru. Shiraz, Merlot, Cabernet sauvignon og umfram allt Zinfandel eru vín sem oft hæfa vel með slíkum grillmat. Þá er Ripasso frá Ítalíu oft nokkuð gott val. Ef ég nota slíkar BBQ-sósur þá er ég reyndar yfirleitt ekki að draga fram einhverjar gersemar úr vínkælinum heldur vel ég oft ódýrari vín og á sumrin er ég yfirleitt með eitthvert kassavín í gangi sem hæfir grillmat. Dæmi um vín sem henta með BBQ-mat: Rosemount Shiraz, Beringer Zinfandel, Firestone Merlot, Casillero del Diablo Cabernet Sauvignon og Francis Coppola Diamond Merlot. Dæmi um góð kassavín er t.d. Gato Negro Cabernet Sauvignon og Drostdy-Hof Cape Red.

Sé nauta- og lambakjötið kryddað á “hefðbundinn” hátt (salt, pipar, ferskar kryddjurtir) er hægt að taka fram fágaðri vín, s.s. Bordeaux, Rónarvín, Tempranillo frá Rioja eða jafnvel ítalskan Brunello. Dæmi um góð vín af þessum toga eru M. Chapoutier Bellerouche Cote de Rhone, Rosemount GSM, Montecillo Reserva og Chateau Greysac.

Þegar svínakjöt er á boðstólum vel ég heldur léttari rauðvín á borð við Toscana-vín, s.s. Villa Puccini Chianti Riserva, Antinori Chianti Classico eða Fairview Pinotage frá Suður-Afríku. Einnig er hægt að fá sér gott hvítvín á borð við Beringer Chardonnay.

Með kjúklingnum vel ég oftast nær ástralskt eða amerískt Chardonnay (t.d. frá Beringer eða Wolf Blass), en ef hann er grillaður í BBQ-stíl er alveg hægt að bjóða upp á létt og ávaxtaríkt rauðvín, s.s. Laforet frá Joseph Drouhin, Mouton Cadet eða kassavín á borð við J.P. Chenet Cabernet Syrah.

Með fiskinum fæ ég mér undantekningarlaust hvítvín, en ég verð reyndar að viðurkenna að ef ég grilla fisk þá er það yfirleitt lax sem verður fyrir valinu, bæði vegna þess að hann hentar mjög vel á grillið og vegna þess að það er vinsælt hjá börnunum! Með grilluðum laxi finnst mér yfirleitt best að drekka gott Chardonnay (t.d. Beringer, Wolf Blass) en einnig fæ ég mér stundum Rosemount Semillon-Chardonnay og jafnvel Dr. Loosen Wehlener Sonnenuhr Riesling eða annan þýskan Riesling, einkum ef heitt er í veðri!

Allir athugasemdir vel þegnar!

%d bloggers like this: