Vínglósur

Ef þú getur ekki lýst víni fyrir öðrum, þá er í raun erfitt að mæla með víninu, þ.e.a.s. erfitt að rökstyðja hvers vegna það sé gott. Vínsmökkun felst jú fyrst og fremst í því að njóta góðra vína með það fyrir augum að læra einnig af víninu og þá er gott að taka glósur um vínið og ég mæli eindregið með því að það sé gert.

Það þarf enga sérstaka hæfileika og það þarf ekki að vera neitt ákveðið form á glósunum. Þegar þú smakkar vínið þá skráir þú hjá þér helstu upplýsingar á flöskunni. Síðan notar þú bara eigin orð til að lýsa útliti, lykt, bragði, eftirbragði og svo að lokum heildaráliti þínu á víninu. Þú getur einnig gefið víninu einkunn eða stig, en slíkt er alls ekki nauðsynlegt. Þú ræður alveg hvað þú segir um vínið og þú þarft ekki að sýna neinum glósurnar þínar. En með því að smakka vínið á skipulegan hátt og skrá niðurstöðurnar hjá þér, þá festist vínið betur í minni og þannig verður einnig auðveldara að bera vínið saman við önnur vín sem þú smakkar fyrr eða síðar.

Þú getur notað litla miða, stílabók, glósubók, gagnagrunn í tölvu eða hvaða aðferð sem er til að geyma vínglósurnar þínar, og þú ræður alveg sniðinu á þeim.

Allir athugasemdir vel þegnar!

%d bloggers like this: